Í tilefni 15 ára afmælis Beint frá býli voru haldnir afmælisviðburðir um land allt, sunnudaginn 20. ágúst kl. 13-17.
Á Norðurlandi vestra var viðburðurinn haldinn á Stórhóli (Rúnalist Gallerí) í Skagafirði af Sigrúnu Helgu Indriðadóttur, Þórarini G Sverrissyni og fjölskyldu.
Afmælishátíðin heppnaðist einstaklega vel, gott veður var og 4-500 manns komu og nutu dagsins með okkur.
Við vorum 11 aðilar í Beint frá Býli á norðurlandi vestra sem kynntum vörur okkar. Austan vatna grillaði eigin pylsur og borgara, Brúnastaðir í Fljótum komu með frábæru geitaostana, Garðyrkjustöðin Breiðagerði bauð upp á lífrænt ræktað grænmeti og afurðir úr því, Hraun á Skaga kynnti æðardúnsframleiðslu sína og sauðfjárafurðir, Hulduland kynnti vörurþróun úr Burnirót og fleira, Hvammshlíð kynnti kúaostana sína, Ísponica á Hólum kynnti grænmeti og sprota úr samrækt, Kjötvinnslan Birkihlíð bauð upp á nauta og lambakjöt, Kaldakinn bauð upp á villibráð og fleira, Sölvanes bauð upp á lífrænt ræktaðar sauðfjárafurðir og Stórhóll bauð upp á geita og sauðfjárafurðir með meiru.
Beint frá Býli bauð upp á afmælisköku, kaffi og djús fyrir gesti. Kvenfélag Lýtingsstaðahrepps sá um veitingarnar og seldi að auki bakkelsi. Ferðaþjónustan Lýtingsstöðum teymdi hesta undir börnum frá kl. 14:00-15:30. Einnig var leiksvæði fyrir börn.
Geitur, kiðlingar og hvolpur voru á sínum stað til að heilsa upp á gesti og gangandi.
Við þökkum öllum þeim sem heimsóttu okkur kærlega fyrir komuna, þið lögðuð ykkar að mörkum til að gera daginn ógleymanlegan.